Allar færslurMynd af síma með bankamerki

18. maí 2022Einar Björgvin Eiðsson

Hvað er nýbanki?

Nýbanki. Þegar flestir heyra þetta orð dettur þeim í hug “nýr banki” sem er bara bara ansi góður skilningur á þessu orði. Þrátt fyrir það hefur þetta orð ekki verið mikið notað á Íslandi hingað til, kannski aðallega vegna þess að það hefur eiginlega ekki verið stofnaður neinn nýr banki á Íslandi svona síðustu fimmtíu árin eða svo.

Þrátt fyrir að orðið nýbanki sé kannski auðskiljanlegt, þá er hægt að koma með aðeins betri og skemmtilegri lýsingu á því hvað þetta hugtak stendur fyrir en bara “nýr banki”. Hjá indó finnst okkur orðið nýbanki eiga við fyrirtæki sem:

  • er að veita alla þá bankaþjónustu sem fólk býst við en þorir að vera öðruvísi á allskonar góðan hátt en gömlu bankarnir á markaðnum

  • er með sterkan fókus á þarfir fólks og er að búa til vörur og þjónustur sem leysir alvöru vandamál

  • er alveg gagnsætt með hvaða gjöld fólk greiðir og afhverju, og er ekki með í verðlagningarklúbbi ráðandi aðila á markaði þar sem allt hjá öllum kostar alveg voðalega svipað

Það væri hægt að halda áfram hérna, en þessi þrír hlutir ná ansi vel utan um hvað okkur finnst; nýbankar eru öðruvísi á góðan hátt, þeir eru með fókus á fólkið sem velur að vera hluti af nýbankanum og þeir velja að vera ekki með í gamla klúbbnum.

Ef við horfum aðeins út fyrir landsteinana, þá hafa verið stofnaðir margir nýbankar í löndunum í kringum okkur. Á ensku er hugtakið sem notað er yfir þá “challenger banks”, sem í beinni þýðingu er “áskorendabankar” sem er eiginlega ennþá betra orð heldur en “nýbanki”. Stofnendur þessara banka eiga það sameiginlegt að hafa ákveðið að skora gömlu bankana á hólm í samkeppninni um viðskiptavini. Í flestum tilfellum er þessi áskorun ansi mikið í stíl við bardaga Davíðs og Golíats, þar sem gömlu bankarnir eru stórir, ríkir, gamlir og innmúraðir í flest kerfi þeirra samfélaga sem þeir starfa í. Á sama tíma eru áskorendabankarnir litlir, snöggir og fullir af fólki sem trúir sterklega á það sem það er að gera og vill vera hluti af því að breyta kerfinu til hagsbótar fyrir alla.

Næst okkur á Norðurlöndum hafa margir nýbankar verið stofnaðir, hinn sænski Klarna sem breytti sér í nýbanka með bankaleyfi 2018, hinn danski Lunar sem hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og fjöldi smærri aðila svo sem Rocker, PFC, Instabank o.fl.. Oft hafa þessi fyrirtæki byrjað að veita einhverja fjármálaþjónustu sem ekki krefst bankaleyfis, en svo ákveðið að skora gömlu bankana á hólm á þeirra heimavelli sem er sú þjónustu sem krefst bankaleyfis (til dæmis að taka á móti innistæðum). Þessir norrænu nýbankar hafa samanlagt milljónir ánægðra viðskiptavina og eru að breyta norrænu bankaumhverfi til hins betra.

Í Bretlandi á árunum 2014-16 varð mikil nýsköpun í fjármálakerfinu og nýbankarnir Monzo, Starling og Revolut urðu til. Þeir hafa undanfarin ár vaxið og dafnað, byrjað að bjóða upp á fleiri og fleiri vörur og hafa samtals í kringum 25 milljón viðskiptavini innan og utan Bretlands. Þeir hafa til dæmis vakið fólk á Bretlandi til vitundar um að það þarf ekki að borga bönkum mörg prósent aukalega bara fyrir að nota kortið utanlands.

Nýbankar eru eitthvað sem er komið til að vera og núna í ár mun Ísland fá sinn fyrsta nýbanka í formi sparisjóðsins indó. Við ætlum að vera öðruvísi en gömlu bankarnir, hafa sterkan fókus á fólkið sem kemur til okkar í viðskipti og vera eins gagnsæ með allt og hægt er. Indó ætlar að skora gömlu bankana á hólm og gera okkar besta til að búa til fyrirtæki sem fólk getur hugsað sér að skipta yfir til með sín daglegu viðskipti.

Við viljum hlusta, og ef þú ert með hugmyndir, hugsanir eða bara baráttukveðjur, máttu endilega senda okkur hugmyndir um hvað við getum gert gegnum hugmyndabankann.