Bank bank … Hér finnur þú bankaorð á mannamáli

Stýrivextir

Stutta svarið:
Stýrivextir eru settir af Seðlabanka Íslands til að reyna að hafa áhrif markaðsvexti. Þegar stýrivextir eru hækkaðir er verið að reyna að hægja á efnahagslífinu, berjast gegn verðbólgu og hækka gengi gjaldmiðils. Þegar þeir eru lækkaðir er verið að reyna að minnka virði gjaldmiðils og örva efnahagslíf.

Lengra svarið:
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru, í dag, þeir vextir sem bankinn býður innlánsstofnunum á bundnum innlánsreikningum. Þ.e. innlánsvextir á bundnum sparireikningum Seðlabankans sem bara bankar og sparisjóðir mega nýta sér (auk tiltekinna ríksisstofnana). Þegar Seðlabankinn vill hægja á verðbólgu, þá hækkar hann þessa vexti í þeirri von að bankar og sparisjóðir hækki sína útlánsvexti til samræmis (og innlánsvexti líka), og hvetji þannig fólk til að borga niður skuldir eða auka sparnað. Kenningarnar segja okkur að slíkt sé til þess fallið að draga úr neyslu, minnka eftirspurn, og það muni lækka verð á vörum og þjónustu og þannig draga úr verðbólgu.

Þegar Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að hagkerfið sé að hægja um of á sér, eða jafnvel stöðvast, þá lækkar hann vextina og vill þannig ná fram öfugum áhrifum borið saman við dæmið að ofan. Hann vill þannig draga úr sparnaði og auka lántökur til að efla eftirspurn eftir vörum og þjónustu, og þannig örva hagkerfið - það þarf þannig að ráða fleira fólk til að anna eftirspurninni og margt fleira.

Sjá öll bankaorð