indó merki

Vextir & verðskrá

23.ágúst 2023

Færslugjöld: Núll og nix

Af hverju í ósköpunum ættum við að rukka þig fyrir að fá að nota peningana þína? Ef kaffibollinn kostar 495 krónur, þá borgarðu bara það fyrir bollann, ekki krónu meira!

Gengisálag vegna erlendrar kortanotkunar: Nákvæmlega ekki neitt

Ef við værum dæmigerður banki myndum við rukka þig um ca. 2,5% álag ofan á gengi erlendra gjaldmiðla þegar þú notar kortið í útlöndum (eða í þægindum heima fyrir og kaupir í erlendum vefverslunum). Og við myndum sennilega ekki segja þér það beint út, heldur láta duga að gefa þér verra gengi en ella og vona að þú tækir ekki eftir því. En við erum ekki dæmigerður banki, við erum indó. Við leggjum ekkert ofan á það gengi sem við sjálf fáum frá VISA, því við erum jú öll indóar!

Önnur gjöld: Engin!

Það eru bara engin gjöld í indó! Ekkert árgjald, ekkert stofngjald. Ekkert bull!

Innlánsvextir á debetreikning: 4,00% á ári

Debetreikningur indó er hefðbundinn veltureikningur. Í dag eru vextir á veltureikningi indó 4,00% sem eru greiddir út mánaðarlega og við erum afskaplega ánægð með að greiða okkar viðskiptavinum þessa vexti.

Innlánsvextir á sparibaukum: 8,25% á ári

Sparibaukarnir okkar eru allir óbundnir og óverðtryggðir sparnaðarreikningar. Okkur finnst mikilvægt að bjóða alltaf sanngjarna og samkeppnishæfa vexti á sparireikningi en okkur finnst líka jafn mikilvægt að hjálpa þér að byrja spara og spara án fyrirhafnar. Við greiðum vexti út mánaðarlega en ekki árlega, þannig nýtur þú vaxta á vöxtunum þínum.

Hvernig ákveður indó hvaða vexti þú færð?

Við leggjum áherslu á að bjóða sanngjarna og samkeppnishæfa vexti. En hvað er sanngjarnt? Okkur finnst að minnsta kosti sanngjarnt að þú fáir betri vexti þegar við fáum betri vexti. Þess vegna stefnum við að því að breyta okkar vöxtum þegar Seðlabanki Íslands breytir vöxtum - og gerum það innan 2ja daga. Enda er engin ástæða að bíða með það.

Við vitum líka að vextir á sparnaðarreikningi skipta meira máli en vextir á veltureikningi. Þess vegna einblínum við alltaf á að bjóða eins góð kjör á sparnaðarreikningi og við mögulega getum - en á sama tíma bjóða sanngjarna vexti á veltureikningi. Við viljum líka hvetja þig til að leggja til hliðar og spara - og geyma ekki of mikinn pening á debetreikningnum.

Við erum ekki að keppast við að bjóða alltaf hæstu vexti á markaði hverju sinni, heldur þá vexti sem við getum boðið hverju sinni. Það er margt sem hefur áhrif á hvaða vaxtakjör við getum boðið hverju sinni - en einna helst eru það þau vaxtakjör sem indó sjálft fær. Við leggjum mikla áherslu á að vera mjög varfærin í því hvernig við geymum innlánin þín og því gæti verið að við fáum ekki alltaf jafn góð kjör og aðrir.

Hvar geymir indó peninginn?

Bankar og sparisjóðir virka þannig að þegar þú treystir þeim fyrir peningunum þínum, þá ráðstafa þeir þeim til þess að ávaxta þá, sem getur verið mis áhættusamt. Stundum eru peningarnir geymdir í formi útlána til annarra viðskiptavina, stundum í formi útlána til annarra banka eða Seðlabankans og jafnvel í formi útlána til hins opinbera.

indó er að stíga sín fyrstu skref á fjármálamarkaði og kýs því að stíga varlega til jarðar og taka ekki of mikla áhættu með peninginn þinn, enda er traust og öryggi okkar hjartans mál. Eftir því sem við stækkum getum við ráðstafað þínum peningum á fjölbreyttari hátt. Við erum ekki enn farin að bjóða viðskiptavinum okkar upp á útlán (það kemur von bráðar, samt). Þess vegna setjum við þína peninga í hluti eins og útlán til ríkisins, annarra banka og Seðlabankans.

Við veljum að taka áhættu í litlum og vel skilgreindum skrefum, enda er það gott fyrir alla.