Bank bank … Hér finnur þú bankaorð á mannamáli

Senda inn bankaorð
Senda inn bankaorð
  • Bankanúmer
    opna orð

    Stutta svarið:
    Hugsaðu um bankanúmer sem kennitölu bankareikningsins þíns. Bankanúmer er einstakt og enginn annar bankareikningur er með sama númer. indó er t.d. með bankanúmerið 2200.

    Lengra svarið:
    Allir bankar á Íslandi eru með auðkennisnúmer, indó er með bankanúmerið 2200 en t.d. er Landsbankinn með bankanúmer 100, Arion banki með 300, Kvika með 700, sparisjóðirnir með 1100 og Íslandsbanki 500. Svo fær hvert útibú banka sérstakt númer í sama hundraði. Þannig eru útibú t.d. hjá Íslandsbanka með bankanúmer 515, 513 o.s.fr.

    Þegar við tölum um reikningsupplýsingar við millifærslu, þá byrjum við á bankanúmeri (eða númeri útibús) sem er auðkenni á þeim banka eða sparisjóði sem um ræðir, svo kemur nokkuð sem kallast höfuðbók og segir til um hvers konar bankareikning um er að ræða (veltureikning, sparireikning eða reikning í erlendri mynt svo dæmi sé tekið), og svo hið eiginlega reikningsnúmer sem er númerið bankareikningnum sjálfum. Með þessu verður til nokkurs konar "kennitala" fyrir bankareikninginn.

  • Óbundin innlán
    opna orð

    Stutta svarið:
    Peningur sem þú hefur alltaf aðgang að, til dæmis debetreikningar og sparibaukarnir hjá indó.

    Lengra svarið:
    Óbundin innlán eru reikningar sem þú getur tekið út af hvenær sem er. Dæmi um slíkt eru t.d. veltureikningar (sem tengdir eru debetkorti) og margir sparireikninga. Bundnir reikningar eru þannig að ekki er hægt að taka út af þeim nema eftir tiltekinn tíma (oft vikur, mánuði eða jafnvel ár) frá því að lagt er inn. Slíkir reikningar bera almennt hærri vexti en óbundin innlán.

  • Vaxtavextir
    opna orð

    Stutta svarið:
    Þegar búið er að greiða vexti af innstæðu, og þeir liggja inn á bankareikningnum, þá greiðast vextir af þeim vöxtum.

    Lengra svarið:
    Þegar þú átt fjárhæð inni á bankareikningi og færð greidda vexti, þá leggjast þeir vextir við höfuðstólinn (þ.e. upprunalegu fjárhæðina) og þú átt þá fleiri krónur inni á reikningnum. Ef þú tekur ekkert út af reikningnum og svo kemur að því að vextir eru aftur greiddir út (t.d. mánuði eða ári seinna), þá reiknast þeir vextir af upprunalegu fjárhæðinni plús þeim vöxtum sem greiddir hafa verið áður. Þannig reiknast (og greiðast) vextir í raun af þeim vöxtum sem borgaðir hafa verið, vextir reiknast á vextina.

  • Veltureikningur
    opna orð

    Stutta svarið:
    Bankareikningur sem er tengdur við debetkort.

    Lengra svarið:
    Veltureikningur er bankareikningur sem tengdur er debertkorti (í gamla daga voru þeir reikningar tengdir ávísunum). Þessi tegund reikninga gerir það að verkum að hægt er að ráðstafa peningum af þeim með beinum hætti til kaupa á vöru og þjónustu.

    Við getum t.d. ekki borgað fyrir matarkörfuna út af sparireikningi, því til þess þyrfti að millifæra inn á búðina, en debetkortið, sem er tengt veltureikningi, virkar í posanum og því getum við greitt með peningum sem eru þar inni í versluninni.

  • Verðbólga
    opna orð

    Stutta svarið:
    Verðbólga er mælikvarði á verðgildi peninga. Ef 1.000 krónur kaupa ekki það sama í dag og þær gerðu fyrir ári, þá hefur verðbólgan rýrt verðgildi þessara 1.000 króna

    Lengra svarið:
    Verðbólga er mælikvarði á það hversu mikið vörur og þjónusta hækkar í verði yfir tiltekið tímabil. Ef brauð kostaði 300 krónur í fyrra en núna, 12 mánuðum síðar, kostar sama brauð 330 krónur þá má segja að verðbólgan sé 10%.

    Það má líka snúa þessu alveg við og segja að verðbólga segi til um hversu mikið ein króna rýrnar. 300 krónur dugðu til að kaupa eitt brauð í fyrra en duga ekki til að kaupa það núna, og munar þar 10%.

    Almennt viljum við ekki að verðbólga sé mikil því það er merki um að hagkerfið sé í ójafnvægi. En að sama skapi viljum við að það sé einhver verðbólga, kannski 2% eða svo á ári, því slíkt er til marks um að hagkerfið sé að vaxa og það er talið merki um heilbrigði.

  • Yfirdráttur
    opna orð

    Yfirdráttur er lán frá banka eða sparisjóði þar sem innstæða á bankareikningi, yfirleitt veltureikningi, getur orðið neikvæð.

    Yfirdráttur er almennt dýrt lánsform og vextir háir, og að auki skapa bankar almennt ekki mikinn hvata til að greiða hann niður með skipulegum hætti.

  • Áreiðanleikakönnun
    opna orð

    Stutta svarið:
    Þegar þú tekur áreiðanleikakönnun eru að sanna að þú sért þú! Einnig ertu að svara hvar þú hefur borgað skatta (á íslandi eða í útlöndum).

    Lengra svarið:
    Því miður er það þannig að um allan heim stunda óprúttnir aðilar það að nota bankakerfi til að fela illa fengið fé eða jafnvel til að koma peningum til hryðjuverkahópa og annarra glæpamanna. Umsvif þessa eru gríðarleg á heimsvísu og það er keppikefli okkar allra að reyna að útrýma þeirri óværu sem slík hegðun er. Í því sambandi eru í gildi stífar reglur sem skylda banka til að ganga úr skugga um að viðskiptavinir séu í raun og veru þeir sem þeir segjast vera, og að peningarnir sem þeir leggja inn í bankana (og taka út) séu notaðir í löglegum tilgangi. Almennt kallast þetta áreiðanleikakönnun og okkur ber öllum að fara í gegnum hana, þó að spurningarnar séu oft undarlegar og okkur finnist skrýtið að þurfa að upplýsa um þessa hluti. En tilgangurinn er ekki að hnýsast í málefni einstakra og heiðarlegra viðskiptavina, heldur að ná í skottið á glæpamönnum og þannig leggja baráttunni gegn mansali, skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum lið.

  • Bindiskylda
    opna orð

    Er ekki skylda til að vera með bindi (ótrúlegt en satt). Heldur er þetta aðferð til að hafa stjórn á magni lausafjárs í umferð. Bindiskylda er sett á lánastofnanir eins og viðskiptabanka sem þýðir að þær verði að setja ákveðið hlutfall af innlánum á reikning seðlabankans. Í stuttu máli = Hluti innlána banka er lögð á reikning hjá Seðlabankanum og dregur þannig úr getu banka til að lána út peninga.

  • Stýrivextir
    opna orð

    Stutta svarið:
    Stýrivextir eru settir af Seðlabanka Íslands til að reyna að hafa áhrif markaðsvexti. Þegar stýrivextir eru hækkaðir er verið að reyna að hægja á efnahagslífinu, berjast gegn verðbólgu og hækka gengi gjaldmiðils. Þegar þeir eru lækkaðir er verið að reyna að minnka virði gjaldmiðils og örva efnahagslíf.

    Lengra svarið:
    Meginvextir Seðlabanka Íslands eru, í dag, þeir vextir sem bankinn býður innlánsstofnunum á bundnum innlánsreikningum. Þ.e. innlánsvextir á bundnum sparireikningum Seðlabankans sem bara bankar og sparisjóðir mega nýta sér (auk tiltekinna ríksisstofnana). Þegar Seðlabankinn vill hægja á verðbólgu, þá hækkar hann þessa vexti í þeirri von að bankar og sparisjóðir hækki sína útlánsvexti til samræmis (og innlánsvexti líka), og hvetji þannig fólk til að borga niður skuldir eða auka sparnað. Kenningarnar segja okkur að slíkt sé til þess fallið að draga úr neyslu, minnka eftirspurn, og það muni lækka verð á vörum og þjónustu og þannig draga úr verðbólgu.

    Þegar Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að hagkerfið sé að hægja um of á sér, eða jafnvel stöðvast, þá lækkar hann vextina og vill þannig ná fram öfugum áhrifum borið saman við dæmið að ofan. Hann vill þannig draga úr sparnaði og auka lántökur til að efla eftirspurn eftir vörum og þjónustu, og þannig örva hagkerfið - það þarf þannig að ráða fleira fólk til að anna eftirspurninni og margt fleira.

  • Fjármagnstekjuskattur
    opna orð

    Er skattur sem leggst á tekjur einstaklinga af vöxtum, arði og hagnaði af leigu og sölu á húsnæði. Þessi skattur rennur óskiptur til ríkisins.

  • Verðtrygging
    opna orð

    Stutta svarið:
    Verðtrygging er aðferð til að tryggja að lán og sparifé haldi verðgildi sínu. Á verðtryggðum lánum hækka afborganir af þeim í takt við verðbólgu. Þannig getur sá sem lánar þér pening verið viss um að eftir að þú hefur greitt upp lánið geti hann aftur fengið sambærilega vöru fyrir.

    Lengra svarið:
    Ég og vinkona mín förum út í ísbúð og kaupum okkur ís sem kostar 1.200 krónur. Ég lána vinkonu minni fyrir ísnum þar sem hún gleymdi kortinu sínu heima. Ári síðar förum við í sömu ísbúðina og ætlum að kaupa samskonar ís, en þá kostar ísinn 1.400 og ég gleymdi mínu veski heima. Hún man auðvitað eftir því að ég lánaði henni árið áður og býðst til að borga mér til baka. Þá er spurningin, hvort borgar hún mér til baka 1.200 krónur, eða borgar mér til baka einn ís? Væntingar mínar eru auðvitað að þar sem ég lánaði henni fyrir einum ís, þá borgi hún mér til baka þá fjárhæð sem getur keypt samskonar ís, þó hann sé dýrari. Verðtrygging er í raun fyrirbæri sem tryggir að peningar haldi verðgildi sínu. Þ.e. að ef ég lána þér 10.000 krónur í dag, þá fái ég greitt til baka (t.d. eftir eitt ár) þá fjárhæð sem getur keypt hluti sem í dag kosta 10.000 en munu kosta eitthvað meira eftir árið. Sum sé, að lánið haldi verðgildi sínu.

    Ef vextir eru verðtryggðir, þá er talað um að vextirnir sjálfir leggist ofan á verðtrygginguna (þ.e. ef verðbólga er 7% og vextirnir eru 2%, þá fjölgar krónunum sem ég skulda um 7% og ég greiði síðan 2% af þeim fjölda króna). Með ákveðinni einföldun má segja að vextirnir af láninu séu því verðbólgan plús vextir. Ef vextir eru óverðtryggðir, þá reiknar lánveitandinn með ákveðinni verðbólgu og reiknar hana inn í vextina. Ef við værum eiginlega viss um að verðbólgan næsta árið yrði 7% og við myndum vilja 2% vexti ofan á það (rétt eins og í dæminu að ofan), þá myndu óverðtryggðu vextirnir vera 9% (sem væri svo að segja það sama og verðtryggðir vextir upp á 2%).

  • Útlánsvextir
    opna orð

    Stutta svarið:
    Prósenta sem þú þarft að borga banka eða fjármálastofnun fyrir að hafa fengið lánaðan pening.

    Lengra svarið:
    Þegar við fáum lán hjá banka greiðum við vexti sem eiga að endurspegla hversu mikil hætta er á að því að við getum ekki greitt lánið til baka að fullu. Þegar hægt er að setja eignir að veði fyrir láninu, þ.e. af við getum ekki greitt af láninu hafi lánveitandinn möguleika á að selja eign sem liggur að veði og fá þannig lánið greitt til baka, þá er áhættan minni og vextirnir þar af leiðandi lægri. Þess vegna eru t.d. húsnæðislán yfirleitt með lægri vexti en yfirdráttarlán, því húsnæðið er til tryggingar á láninu.

  • Innlánsvextir
    opna orð

    Stutta svarið:
    Vextir sem bankinn eða fjármálastofnun borgar þér!

    Lengra svarið:
    Þegar við leggjum peninga inn á bankareikning þá erum við að lána bankanum peninga. Eins og almennt gerist og gengur í lánsviðskiptum, þá borgar sá sem fær peninga að láni vexti til þess sem lánar peningana. Vextirnir eiga að taka mið af þeirri áhættu sem lánveitandinn tekur með peningana; því meiri áhætta því hærri vextir.

  • Færslugjöld
    opna orð

    Stutta svarið:
    Gjald sem bankar leggja á hverja færslu sem þú greiðir með kortinu þínu (psst… færslugjöld hjá indó = núll).

    Lengra svarið:
    Flestir bankar leggja svokölluð færslugjöld á hverja debetkortafærslu (þó vissulega bjóði sumir þeirra einhverjar "fríar" færslur innan árs). Þessi kostnaður er 19-20 krónur á hverja debetkortafærslu, sem þýðir að kaffibollinn sem á að kosta 495 krónur kostar í raun 514 eða 515 krónur, því bankinn klípur af peningunum þínum í hvert skipti sem þú notar þá.

  • Gjaldeyrisálag
    opna orð

    Stutta svarið:
    Ef þú þarf að kaupa eða selja erlendan gjaldeyri í banka (s.s. í skiptum fyrir gömlu góðu íslensku krónuna), þá rukkar bankinn yfirleitt gjald fyrir það, sem getur verið ansi hátt. Það getur verið sérstök þóknun eða einfaldlega lakara gengi. indó stendur ekki í neinu slíku.

    Lengra svarið:
    Þegar banki selur þér erlenda mynt í skiptum fyrir íslenskar krónur, þá býðst bankinn til að selja þér evruna á t.d. 150 krónur. Það þýðir að ef þú notar kortið þitt í útlöndum til að kaupa ís sem kostar 2 evrur, þá eru 300 krónur teknar af reikningnum þínum (ígildi 2ja evra). Það er bankinn sem sér um að koma þessum evrum til ísbúðarinnar, þú einfaldlega borgar ísinn og svalar þér í sumahitanum.

    Til að eiga þessar 2 evrur þarf bankinn sjálfur að kaupa evrunar af einhverjum öðrum og yfirleitt getur bankinn keypt evrurnar töluvert ódýara en hann selur þér þær á. Algengt er að bankinn kaupi evrur (eða hvaða gjaldmiðil sem er) og selji þér með 2-5% álagningu.

    Hjá indó seljum við þér gjaldeyrinn einfaldlega á viðmiðunargengi Visa án álags.

Sendu inn bankaorð og við skulum þýða það á mannamál …

*Útlærðir hagfræðisnillingar gætu verið ósammála einhverju hérna…